Actavis á Íslandi heitir núna Teva

Nafni Actavis Pharmaceuticals Iceland ehf. hefur verið breytt í Teva Pharma Iceland ehf. Þessi nafnabreyting hefur ekki í för með sér neinar breytingar á vörumerkjum fyrirtækisins sem íslenskir neytendur þekkja vel. Önnur starfsemi á Íslandi í eigu Teva, m.a. Medis ehf., starfar áfram undir eigin nafni og er sem fyrr í eigu Teva Pharmaceutical Industries Ltd.

Teva er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem hefur vaxið gífurlega síðastliðna áratugi, bæði með sjálfbærum innri vexti og með kaupum á öðrum fyrirtækjum. Teva keypti Actavis Generics, samheitalyfjahluta Allergan, árið 2016 en hjá Teva höfum við þróað og framleitt lyf í ríflega heila öld.

Vegna sterkrar stöðu Actavis hér á landi varð Actavis eftir sem nafn fyrirtækisins á Íslandi; fyrirtæki sem er þekkt fyrir sölu á samheita- og lausasölulyfjum. Nú er þó kominn góður tími til að samræma nafn fyrirtækisins á Íslandi við móðurfélagið á sambærilegan hátt og unnið hefur verið að á öðrum mörkuðum Teva um allan heim undanfarin ár.

Til viðbótar við gríðarlega fjölbreytt vöruúrval Teva á samheita- og lausasölulyfjum, hefur Teva einnig náð góðum árangri í rannsóknum og þróun á frumlyfjum og hafa nokkur slík lyf komið á markað á síðustu árum, þar á meðal á Íslandi.

Tekið skal fram að nöfn á vörum fyrirtækisins sem núna eru á markaði munu ekki breytast og nafn Actavis mun halda áfram sem sterkt vörumerki á vörum Teva.

Til viðbótar við öfluga sölu- og markaðseiningu Teva á Íslandi, Teva Pharma Iceland ehf., eru hér á landi einnig staðsettar alþjóðlegar stoðeiningar fyrir fyrirtækið, m.a. á sviði gæðamála, auk höfuðstöðva Medis sem er einnig dótturfélag Teva og selur lyf og lyfjahugvit til þriðja aðila um allan heim. Hjá öllum einingum Teva á Íslandi starfa alls um 120 manns í dag.